Bótaréttur I

eftir Eirík Jónsson og Viðar Má Matthíasson

Ritið er hluti af heildarverki sem ætlað er að ná með heildstæðum hætti utan um helstu þætti íslensks bótaréttar, en með því er átt við skaðabótarétt, vátryggingarétt og bótaúrræði félagsmálaréttar vegna líkamstjóna. Bókin fjallar um almenna hluta skaðabótaréttar en Bótaréttur II, sem kemur út í september n.k., fjallar um almenna hluta vátryggingaréttar auk þess að veita yfirlit um bótareglur félagsmálaréttar.

Bótaréttur I fjallar um skaðabótarétt, þ.e. þær reglur sem lúta að skaðabótum utan samninga. Þar er meðal annars fjallað um skilyrði skaðabótaábyrgðar, þ.á.m. reglurnar um grundvöll skaðabótaábyrgðar og þær reglur sem gilda um mörk og takmarkanir slíkrar ábyrgðar. Þá er fjallað um það tjón sem skaðabótum er ætlað að mæta, skaðabótakröfuna og fjárhæð skaðabóta.

Ritið byggir á bókinni Skaðabótaréttur, eftir Viðar Má Matthíasson, sem kom út árið 2005. Segja má að ritið feli í sér endurritaða og uppfærða útgáfu af hinni eldri bók, en margvísleg þróun hefur átt sér stað síðastliðinn áratug, svo sem með þeim mörg hundruðum hæstaréttardóma sem fallið hafa og þeim lagabreytingum sem gerðar hafa verið, auk þess sem til hafa komið margháttuð nýrri fræðiskrif. Sú greining sem í ritinu birtist tekur eðli málsins samkvæmt mið af þessari þróun og er ætlað að veita heildstætt yfirlit um íslenskan skaðabótarétt á árinu 2015. Þá er efnisuppbyggingu að hluta til skipað með öðrum hætti en í hinu eldra riti og heildarumfjöllunin styttri, þótt umfjöllun um einstaka efnisþætti sé ítarlegri en áður.

Samkvæmt framansögðu býr að baki ritinu heildstæð rannsókn á íslenskum skaðabótarétti síðastliðins áratugar, auk könnunar á réttarþróun á hinum Norðurlöndunum. Vinna við rannsóknina hófst á árinu 2012 en meginþungi hennar fór fram á árinu 2014 og í byrjun árs 2015.

© Copyright - Bókaútgáfan Codex