Dómar í sakamálaréttarfari, e. Eirík Tómasson
Bókaútgáfan Codex hefur nú gefið út ritið Dómar í sakamálaréttarfari eftir Eirík Tómasson. Í ritinu gefur að finna 550 reifanir á dómum Hæstaréttar frá árunum 1990-2007 er varða álitaefni á sviði sakamálaréttarfars. Dómarnir eru kveðnir upp í gildistíð eldri laga um meðferð opinberra mála, en langflestir þeirra hafa þó enn óskorað fordæmisgildi eftir gildistöku nýrra laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Efnisskipan ritsins er sú að dómareifanirnar eru í tímaröð. Dómunum er ekki skipað eftir efni þeirra, enda er stundum fjallað um fleiri en eitt álitaefni í einum og sama dóminum. Atriðisorðaskrá ritsins er aftur á móti ætlað að vísa á einstaka dóma eftir efni þeirra. Þá inniheldur ritið lagaskrá þar sem dómarnir eru flokkaðir eftir því hvaða lagaákvæði koma fyrir í þeim.
Reifanir einstakra dóma eru uppbyggðar með þeim hætti að ef um er að ræða dóma í áfrýjunarmálum er þess getið hverjar voru sakargiftirnar í hverju máli. Ef ákærði var ekki sakfelldur er vísað til ætlaðs brots eða brota hans. Við hvern dóm eru síðan greind viðeigandi atriðisorð, eitt eða fleiri, sem aftur er að finna í atriðisorðaskránni. Þá er vísað til stjórnarskrár og Mannréttindasáttmála Evrópu ef reynt hefur á fyrirmæli þeirra við úrlausn réttarfarsatriða í dóminum. Loks er í sumum tilvikum vísað til málsúrslita, t.d. ef máli hefur verið vísað frá héraðsdómi eða Hæstarétti ellegar skaðabótakröfu, sem höfð hefur verið uppi í einkamáli á grundvelli hinna sérstöku bótaákvæða í lögum um meðferð opinberra mála, hefur verið hafnað. Þá er sératkvæða getið ef þau varða réttarfarsleg atriði.
Aftast í ritinu er að finna svonefndan lagalykil, þar sem ákvæði laga nr. 88/2008 eru borin saman við ákvæði annarra laga, þá sérstaklega laga nr. 19/1991. Loks ber að geta þess að allir þeir dómar, sem vísað er til í nýju riti frá Bókaútgáfunni Codex Lög um meðferð sakamála ásamt greinargerð, eru reifaðir í dómasafni þessu. Þannig tengjast þessi tvö rit náið og geta staðið saman sem ein heild.