Bókaútgáfan Codex hefur nú gefið út ritið
Dómar um almennt einkamálaréttarfar 2003-2012, eftir Símon Sigvaldason.
Bókin er unnin með sama sniði og áður. Reifaðir eru valdir dómar Hæstaréttar og þeir færðir inn í atriðisorðasafn bókarinnar. Fyrri bækur um þetta efni eru þannig upp settar að í fyrri hluta bókanna eru dómareifanir en atriðisorðasafn þar fyrir aftan. Þessu hefur nú verið snúið við og er atriðisorðasafnið á undan. Er það eðlilegt í ljósi þess hvernig bókin er notuð. Þá er í þessari bók einungis stuðst við málsnúmer dóma Hæstaréttar þar sem óvíst er hvort Hæstiréttur muni gefa dóma síðari ára út í prentuðum dómaheftum.
Reynt er að gera atriðisorðasafn bókarinnar aðgengilegra en áður með því að búa til yfir það efnisyfirlit og skipta safninu upp í kafla. Er það von höfundar ritsins að þessi uppsetning geri þeim sem nota bókina auðveldara um vik.
Útsölustaðir ritsins eru bóksala Úlfljóts, Lögbergi, Bóksala stúdenta, Háskólatorgi, og valdar verslanir Pennans/Eymundssonar.