Hjúskapar- og sambúðarréttur, e. Ármann Snævarr
Bókaútgáfan Codex hefur gefið út ritið Hjúskapar- og sambúðarréttur eftir Ármann Snævarr. Ritið er um 1100 síður og kemur til með að verða grundvallarrit á framangreindu fræðasviði lögfræðinnar.
Ármann Snævarr á að baki langan og farsælan feril, m.a. sem prófessor við lagadeild Háskóla Íslands (1948-1973), og einnig sem rektor Háskóla Íslands 1960-1969, og svo dómari við Hæstarétt Íslands á árunum 1972-1984. Ármann hefur á ferli sínum ritað fjölmörg mikilsverð rit á sviði lögfræði.
Í I. hluta ritsins er leitast við að veita almenna innsýn inn í fræðigreinina sifjarétt og bregða upp svipmyndum af hinni öru þróun sifjalöggjafar einkum á síðari hluta 20. aldar.
Í II. hluta er almenn greinargerð um fjölskylduna, stöðu hennar og viðfangsefni, fjölskyldugerðir og sifjatengsl.
Í III. hluta er rætt nánar um viðfangsefni sifjaréttarins. Er þar m.a. vikið að samanburðarsifjarétti og því, að sifjaréttarreglur má skoða frá mismunandi sjónarfærum.
Í IV. hluta er fjallað um réttarheimildir sifjaréttar, einkum hjúskapar- og sambúðarréttar. Er þar fjallað um sett lög, jafnræðisregluna og um aðrar heimildir en sett lög (og lögskýringargögn o.fl.).
Í V. hluta er m.a. gerð grein fyrir grunnhugtökunum hjúskapur, staðfest samvist og óvígð sambúð, þ.e. þeim sambúðarformum, sem íslenskur sifjaréttur byggist á.
Í VI. hluta er fjallað um stofnun hjúskapar, hjónavígsluskilyrði og könnun þeirra, og loks hjónavígsluna sjálfa og gildi hennar.
Í VII. hluta er fjallað um réttaráhrif hjúskapar, almennar reglur um stöðu hjóna, þ.á m. jafnstöðureglur, samvistir hjóna, gagnkvæma framfærsluskyldu hjóna og fleira.
Í VIII. hluta er fjármálum hjóna og einstaklinga í staðfestri samvist gerð ítarleg skil, þ.á m. eignum hjóna, reglum um kaupmála o.fl.
Í IX.-XI. hluta er fjallað um lok hjúskapar, t.a.m. reglur um skilnað hjóna og ógildingu hjúskapar.
Í XII. hluta er greinargerð um fjárskiptareglur við skilnað og ógildingu hjúskapar, eins og helmingaskiptaregluna, fjárskiptasamninga, úthlutun og útlagningu eigna o.fl.
Í XIII. hluta er að finna hugleiðingar höfundar um tímabærar breytingar eða heildstæða endurskoðun á hjúskaparlögum nr. 31/1993.
Í XIV. hluta er fjallað ítarlega um sambúðarrétt, staðfesta samvist, óvígða sambúð og óstaðfesta samvist.
Í lok ritsins gefur að finna reifanir á dómum Hæstaréttar 1995-2006, lagaskrá, dómaskrá, skrá yfir rit og ritgerðir, tölfræði/lýðfræðilegar upplýsingar o.fl.
Útsölustaðir ritsins eru m.a. bóksala Úlfljóts, Lögbergi, Bóksala stúdenta, Háskólatorgi og Eymundsson, Holtagörðum.