Bókin hefur að geyma sjö frumsamdar ritgerðir, er fjalla um lagamenn og lög á ýmsum tímum.
Réttar- og viðfangssvið þau, sem í ritinu er að finna, eru fjögur:
Fyrst eru saman í flokki fjórar ritgerðir um lagamenn fyrri tíðar og lögfræðileg rit þeirra, þ.e. áður en háskólakennsla í lögfræði hófst hér á landi. Fremst er ritgerð um Pál Briem amtmann, sem var m.a. afkastamikill fræðimaður í lögfræði og þá einkum réttarsögu. Þá er grein um Jón Pétursson háyfirdómara, sem fyrstur manna kenndi kirkjurétt hér á landi (í Prestaskólanum) og samdi athyglisverða kennslubók á því sviði. Síðan er ritgerð um Björn Jónsson á Skarðsá, sem auk annars var kunnur lögskýrandi á sinni tíð. Lestina rekur grein, er nefnist „Verkamenn í víngarði réttarsögunnar“, en þar er fjallað um lögfræðileg rit Gríms Thorkelíns, Þórðar Sveinbjarnarsonar, Þorleifs Repps og Baldvins Einarssonar. Allar eru þessar greinar framhald fyrri ritgerða höfundar (er birst hafa í ritgerðasöfnum hans) um íslenska lagamenn fyrr á öldum, sem voru skjaldverðir íslenskrar réttarmenningar á sinni tíð.
Af sviði fjölmiðlaréttar er ritgerð, er nefnist „Ritskoðun og sambærilegar hömlur á tjáningafrelsi – Hugleiðingar um rannsókn yfirvalda á efni, sem ætlað er til birtingar“.
Um athyglisverðan þátt íslenskrar réttarsögu er fjallað í ritgerðinni „Jarðaleiga samkvæmt fornum rétti – Frá þjóðveldistímum til síðari alda“.
Undir fræðasviðið samanburðarlögfræði heyrir greinin „Grónar rætur og nýmæli – Um nýleg lagaákvæði á sviði réttarfars og refsifullnustu á Grænlandi“.
Útsölustaðir ritsins eru m.a. bóksala Úlfljóts, Lögbergi, Bóksala stúdenta, Háskólatorgi, og verslanir Pennans / Eymundsson.