Bókin veitir yfirlit um meginviðfangsefni réttarheimspeki fyrir laganema og aðra sem hafa áhuga á grundvelli laga og réttar. Bókinni er ætlað að skapa forsendur fyrir upplýstri umræðu um ýmis grundvallaratriði réttarheimspekinnar og þýðingu þeirra fyrir lagalega aðferð, meðal annars eins og hún birtist í úrlausnum dómstóla.
Í fyrri hluta bókarinnar er kastljósinu beint að grunnspurningu réttarheimspekinnar „hvað eru lög?“ og þá jafnframt að eðli lögfræðinnar sem fræðigreinar. Meðal annars er leitað svara við því hvort hægt sé að gera grein fyrir lögunum með vísindalegum hætti. Því næst er fjallað um helstu kenningar sem settar hafa verið fram um það hvernig afmarka megi lagahugtakið. Lögð er áhersla á hugmyndir sem hafa verið ráðandi í fræðilegri umræðu á síðustu áratugum en vikið að sögulegum atriðum, fyrst og fremst til hliðsjónar. Af þessum sökum fá fræðimenn samtímans hlutfallslega mikla athygli höfunda, til að mynda Ronald Dworkin, John Finnis og Joseph Raz. Þótt áherslur þessara fræðimanna séu ólíkar fjalla þeir allir með einum eða öðrum hætti um eðli laga, tengsl laga og siðferðis og hina lagalegu aðferð.
Í síðari hlutanum er fjallað um valin viðfangsefni stjórnspeki og stjórnskipunarfræða, einkum hugmyndina um greiningu valdsins, réttarríkið og stjórnarskrárhyggju. Við val á þessum viðfangsefnum er horft til þess hve mjög þau fléttast inn í hvers kyns fræðilega og almenna umræðu um grundvallaratriði laga og réttar.