SkaðabótarétturSkaðabótaréttur, e. Viðar Má Matthíasson

Um er að ræða fyrstu heildstæðu bókina um íslenzkan skaðabótarétt.  Bókin er afrakstur áralangra rannsókna höfundar á íslenzkum og norrænum skaðabótarétti.  Ályktanir höfundar eru reistar á lögum og lögskýringargögnum, auk fræðilegra heimilda.  Þá eru reifaðir og teknir til athugunar meira en fimm hundruð íslenzkir hæstaréttardómar og nærri 200 dómar frá öðrum Norðulöndum.  Efni bókarinnar er í sex hlutum, í þremur fyrstu hlutunum er fjallað um grundvallaratriði skaðabótaréttar en þar er viðamest umfjöllun um reglur íslenzks réttar um grundvöll skaðabótaábyrgðar og reglur um takmörkun á umfangi ábyrgðarinnar.  Í fjórða hluta er fjallað um ellefu sérsvið skaðabótaréttar, svo sem bótareglur vegna umferðarslysa, skaðsemisábyrgð, skaðabótaábyrgð barna, sérfræðiábyrgð, skaðabótaábyrgð fasteignareiganda og skaðabótaábyrgð hins opinbera.  Í fimmta hluta er fjallað ítarlega um eitt sérsvið skaðabótaréttar til viðbótar, þ.e. um bætur fyrir líkamstjón, en þær reglur hafa afar mikla þýðingu.  Í þessum hluta er einnig fjallað um tjónshugtakið og ákvörðun bóta fyrir munatjón og almennt fjártjón.  Í síðasta hlutanum er svo vikið stuttlega að reglum um endurgreiðslu auðgunar, einkum til að lýsa því hvernig og hvers vegna þær eru aðgreindar frá skaðabótareglum.

Bókin er fyrst og fremst ætluð lögmönnum, dómurum og öðrum lögfræðingum, sem fást við skaðabótarétt, en einnig laganemum.  Hún fjallar um efni, sem varðar mjög hagsmuni þeirra sem verða fyrir líkams- eða munatjóni og á efni hennar því erindi einnig til þeirra.

© Copyright - Bókaútgáfan Codex