Túlkun lagaákvæða, e. Róbert R. Spanó

Rit þetta er í fimm hlutum, sem skiptast í ellefu þætti. Höfundur leitast við að haga uppbyggingu og efnistökum ritsins með það í huga að lýsa lögskýringarferlinu, eins og það er skilgreint í ritinu, í réttri röð. Til að leggja fræðilegan grunn að þeirri umfjöllun er í fyrsta hluta fjallað með almennum hætti um hugtakið lögskýringarfræði og leitast við að varpa ljósi á eðli lögskýringar. Er þar meðal annars gerð tilraun til að rökstyðja mikilvægi þess við lögskýringu að sá, sem stendur frammi fyrir því verkefni að túlka lagaákvæði, taki afstöðu til þeirra röksemda, sem búa að baki þeirri lögskýringaraðferð, sem hann telur haldbæra við úrlausn máls. Í sama hluta gerir höfundur grein fyrir því grundvallarsjónarmiði að ávallt fari fram heildarmat á innra og ytra samhengi lagaákvæðis við túlkun þess.

Lýsing á lögskýringarferlinu hefst í öðrum hluta með umfjöllun um það, sem höfundur kýs að nefna innra samhengi lagaákvæðis. Beinist umfjöllunin meðal annars að þeim atriðum, sem horfa verður til við afmörkun á merkingarfræðilegum ramma ákvæðisins og að þýðingu rökfræðilegra ályktana við túlkun lagaákvæða. Í þriðja hluta er fjallað ítarlega um ytra samhengi lagaákvæðis. Er áhersla lögð á að varpa ljósi á gildi og áhrif lögskýringargagna við túlkun lagaákvæða, gildi sögulegrar skýringar og markmiðsskýringar og loks um túlkun lagaákvæða með vísan til meginreglna, eðlis máls og almennra lagasjónarmiða. Í fjórða hluta er lögskýringarferlið leitt til lykta með umfjöllun um niðurstöðu lögskýringarinnar og val á lögskýringarleið. Í fimmta hluta er fjallað sérstaklega um sjónarmið við túlkun reglugerðarheimilda annars vegar og við túlkun refsiákvæða hins vegar.

© Copyright - Bókaútgáfan Codex