Viðskipti með fjármálagerninga, e. Aðalstein E. Jónasson

Bókaútgáfan Codex hefur nú gefið út ritið Viðskipti með fjármálagerninga eftir Aðalstein E. Jónasson. Aðgangur fyrirtækja að fjármagni er lífæð atvinnulífsins en slíkur aðgangur felst að stórum hluta í útgáfu og sölu á mismunandi tegundum fjármála-gerninga. Er þar til dæmis um að ræða viðskipti og þjónustu með hlutabréf, skuldabréf, víxla hlutdeildarskírteini og afleiður. Viðskipti með slíka gerninga eiga undir högg að sækja eftir það mikla áfall sem riðið hefur yfir íslenskt efnahagslíf undanfarin misseri. Nauðsynlegt er að brjóta til mergjar lög og reglur sem gilda á þessu sviði og leita svara við krefjandi spurningum eins og:

Hvaða reglur gilda um viðskipti með fjármálagerninga?
Hvaða reglur gilda um viðskipti innherja?
Hvað er markaðsmisnotkun?
Hvað eru afleiður og hvaða reglur gilda um þær?
Hvaða kröfur eru gerðar til fjármálafyrirtækja sem höndla með fjármálagerninga?
Hvernig eru hagsmunir þeirra sem fjárfesta í fjármála-gerningum verndaðir?
Hvaða valdheimildir hafa eftirlitsaðilar gagnvart þeim sem brjóta reglurnar?

Spurningar sem þessar hafa vaknað hjá mörgum og þá ekki síst fjármagnseigendum sem hafa brennt sig illa á viðskiptum með fjármálagerninga. Vantraustið er mikið og því hefur jafnvel verið haldið fram að hér á landi hafi fáar sem engar reglur gilt um fjármálastofnanir og viðskipti með fjármálagerninga. Staðreyndin er hins vegar sú að síðustu 15 árin hefur mjög flókið og umfangsmikið alþjóðlegt regluverk, byggt á reglum Evrópusambandsins, smám saman fest hér rætur. Regluverk þetta byggist á sama grunni og í öðrum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins.

Markmið ritsins er að hjálpa lesendum að skilja út á hvað þetta viðamikla regluverk gengur og tryggja að á einum stað geti þeir nálgast ítarlega og vandaða umfjöllun um allar þær reglur sem gilda hér á landi um viðskipti með fjármálagerninga.

Listaverð ritsins er kr. 15.000. Útsölustaðir ritsins eru m.a. bóksala Úlfljóts, Lögbergi, Bóksala stúdenta, Háskólatorgi, verslanir Pennans / Eymundssonar, og Bókabúð Máls og menningar, Laugavegi.

© Copyright - Bókaútgáfan Codex