Stjórnsýsluréttur – Málsmeðferð
Bókaútgáfan Codex hefur nú gefið út ritið Stjórnsýsluréttur – Málsmeðferð, eftir dr. jur. Pál Hreinsson dómara við EFTA-dómstólinn.
Þegar til stendur að beita opinberu valdi í einstöku máli um rétt eða skyldu manns gilda ákveðnar reglur um meðferð þess. Efni þessa ritsins fjallar um þessar málsmeðferðarreglur svo og aðrar reglur sem þeim tengjast.
Framsetning ritsins er í handbókarformi. Þetta form líkist um margt skýringarritum ef frá er talinn sá munur að handbókin byggist á almennri efnisflokkun á umfjöllunarefni fræðasviðsins en skýringarrit byggjast upp á skýringu einstakra lagagreina eftir röð þeirra í viðkomandi lögum. Í þessari handbók eru annars vegar dregin saman fræðin svo og lögskýringarsjónarmið sem líta ber til við skýringu málsmeðferðarreglna sem gilda um meðferð stjórnsýslumála. Hins vegar eru reifaðir helstu dómar Hæstaréttar og álit umboðsmanns Alþingis sem reglurnar varða.
Í ritinu er að finna kafla um rannsóknarregluna, andmælaregluna, upphaf stjórnsýslumála, tjáningarfrelsi og þagnarskyldu, rökstuðning og kæruleiðbeiningar, ákvörðun máls, form stjórnvaldsákvarðana, birtingu ákvörðunar og fleiri efni sem ekki hafa áður komið fyrir sjónir almennings. Aðrir kaflar ritsins byggjast á eldri rannsóknum höfundar.
Útsölustaðir ritsins eru m.a. bóksala Úlfljóts, Lögbergi, Bóksala stúdenta, Háskólatorgi, og verslanir Pennans / Eymundsson.