Stjórnskipunarréttur – Mannréttindi, e. Björgu Thorarensen
Bókaútgáfan Codex hefur nú gefið út ritið Stjórnskipunarréttur – Mannréttindi. Í bókinni er lýst stöðu og hlutverki mannréttindaákvæða stjórnarskrár lýðveldisins Íslands sem einnar grunnstoðar íslenska stjórnskipulagsins og réttarríkisins. Í fyrri hlutanum er lýst sögulegum uppruna og eðli mannréttindareglna, aðferðum við skýringu stjórnarskrárákvæða um efnið og úrskurðarvaldi um hvort þau eru brotin. Einnig eru útskýrð áhrif Mannréttindasáttmála Evrópu og annarra alþjóðasamninga, staða þeirra í íslensku réttarkerfi og tengsl við stjórnarskrárákvæði um mannréttindi. Eftir breytingar á stjórnarskránni árið 1995 hafa mannréttindareglur í stjórnarskrá og alþjóðasamningum haft umtalsvert meiri áhrif en áður á lagasetningu, stjórnsýslu og störf dómstóla.
Stærsti hluti bókarinnar fjallar um einstaka mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar og þróun þeirra í réttarframkvæmd. Margir stefnumarkandi dómar hafa gengið á síðustu árum þar sem reynt hefur á túlkun þeirra. Þar má sérstaklega nefna álitamál um jafnræðisregluna, réttláta málsmeðferð fyrir dómstólum, friðhelgi einkalífs, tjáningarfrelsið, félagafrelsið, atvinnufrelsið og ýmis félagsleg mannréttindi á borð við réttinn til félagslegrar aðstoðar. Eru fjölmargir dómar raktir og krufðir í bókinni og ályktanir dregnar um inntak mannréttindaákvæðanna.
Bókin er fyrsta heildstæða fræðiritið um mannréttindaákvæði íslensku stjórnarskrárinnar. Hún er ætluð bæði laganemum og starfandi lögfræðingum en einnig hverjum þeim sem vill fræðast um mannréttindi á Íslandi og gildandi réttarreglur á þessu sviði stjórnskipunarréttarins. Bókin ætti jafnframt að reynast nytsamleg í ljósi álitaefna varðandi skerðingu mannréttinda, sem upp hafa komið af tilefni nýlegrar lagasetningar vegna efnahagsástandsins í landinu og hafa verið áberandi í þjóðfélagsumræðunni undanfarið.
Listaverð ritsins er kr. 11.000. Útsölustaðir ritsins eru m.a. bóksala Úlfljóts, Lögbergi, Bóksala stúdenta, Háskólatorgi og Eymundsson, Holtagörðum.