Nýtt rit frá Bókaútgáfunni Codex – Alþjóðlegur einkamálaréttur
Bókaútgáfan Codex kynnir með stolti nýtt rit, Alþjóðlegur einkamálaréttur e. Eirík Elís Þorláksson.
Bókaútgáfan Codex kynnir með stolti nýtt rit, Alþjóðlegur einkamálaréttur e. Eirík Elís Þorláksson.
Bókaútgáfan Codex hefur nú gefið út ritið Alþjóðlegur einkamálaréttur eftir Eirík Elís Þorláksson, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Ritið fjallar um reglur alþjóðlegs einkamálaréttar en eins og kemur fram í ritinu koma reglur alþjóðlegs einkamálaréttar einkum til skoðunar við þrjár aðstæður. Í fyrsta lagi þegar ákvarða skal hvaða lögum skuli beita í lögskiptum aðila. Í öðru lagi við úrlausn á því hvar höfða megi mál. Í þriðja lagi þegar um fullnustu dómsúrlausna er að ræða. Í öllum tilvikum reynir á beitingu þessa þegar mál hafa tengsl við fleiri en eitt land. Þess vegna er rætt um alþjóðlegan einkamálarétt. Reglur þessar eru ekki efnisreglur heldur fremur formreglur og því má segja að réttarsviðið tengist fyrst og fremst réttarfari.
Af þessu leiðir að efnisreglur hvers lands sem á í hlut geta komið til skoðunar í sama máli og reglum alþjóðlegs einkamálaréttar er beitt. Reglum alþjóðlegs einkamálaréttar getur því verið beitt í málum sem lúta efnisreglum hinna ólíku réttarsviða, t.d. á ýmsum sviðum einkaréttar svo sem persónuréttar, sifjaréttar og fjármunaréttar, og einnig á sviði allsherjarréttar, t.d. skattaréttar, umhverfisréttar o.fl.
Í þessu riti er sjónum einkum beint að beitingu reglna alþjóðlegs einkamálaréttar í málum sem varða fjármunarétt. Hvað varðar lagaval eru þannig teknar fyrir reglur á sviði samningaréttar og skaðabótaréttar. Hið sama á við um varnarþingsreglur og fullnustu þar sem einkum er horft til reglna á sviði fjármunaréttar. Að þessu sögðu þá er einnig að finna í ritinu almennar reglur, einkum í fyrsta og öðrum hluta ritsins, sem eiga við á öllum þeim réttarsviðum sem alþjóðlegur einkamálaréttur getur komið við sögu.
Útsölustaðir eru Bóksala stúdenta, Háskólatorgi, Bóksala Úlfljóts, Lögbergi og valdar verslanir Pennans/Eymundssonar. Þá er ritið einnig fáanlegt á Heimkaup.is.