Ábyrgð og aðgerðir – Niðurstöður þverfræðilegrar rannsóknar á einelti meðal barna á Íslandi
Bókaútgáfan Codex og Rannsóknarstofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni við Háskóla Íslands hafa gefið út ritið Ábyrgð og aðgerðir – Niðurstöður þverfræðilegrar rannsóknar á einelti meðal barna á Íslandi.
Á undanförnum árum hefur vaxandi athygli verið beint að einelti meðal barna hér á landi sem og erlendis. Alvarleiki eineltis hefur verið viðurkenndur en þrátt fyrir það er einelti engu að síður raunverulegt vandamál í íslensku samfélagi.
Sumarið 2010 var Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni veittur myndarlegur styrkur úr Styrktarsjóði Margaretar og Bents Scheving Thorsteinssonar til að vinna, í samstarfi við Félagsráðgjafardeild, Lagadeild og Menntavísindasvið Háskóla Íslands, að þverfræðilegri rannsókn á einelti meðal barna í íslensku samfélagi. Unnin var sameiginleg skýrsla út frá þremur meistararitgerðum á ofangreindum fagsviðum og birtist hún hér í þessu riti. Þess er vænst að niðurstöður rannsóknarinnar geri bæði löggjafanum og stjórnvöldum betur kleift að samræma þekkingu sína og reynslu á einelti og það geti leitt til bættrar löggjafar og markvissari þjónustu til að tryggja velferð barna í íslensku samfélagi.