Bréf til ungs lögmanns, e. Alan Dershowitz (þýð. Stefán Einar Stefánsson)
Ritið Bréf til ungs lögmanns, sem nú kemur út í íslenskri þýðingu, hefur vakið mikla athygli í Bandaríkjunum og víðar. Ritið hefur að geyma samantekt á þeim ráðum sem höfundurinn Dershowitz telur að allir ungir lögmenn þurfi að hafa í huga, þegar þeir hefja feril sinn. Dershowitz fjallar um þau margvíslegu vafamál sem geta komið upp í starfi lögmannsins og deilir með lesendum langri reynslu sinni af lögfræðistörfum. Eins og í öðrum verkum sínum vekur höfundur lesandann til umhugsunar og varpar réttmætum vafa á margar viðteknar skoðanir.
Bókin á erindi við alla þá sem velta fyrir sér þeim álitamálum er tengjast dómstólum og málarekstri frammi fyrir þeim. Laganemar, nýútskrifaðir lögfræðingar sem og þeir sem lengi hafa fengist við lögmennsku og önnur lögfræðitengd störf munu heillast af skýrleika og rökfestu hins þekkta prófessors.
Alan Dershowitz er prófessor í refsirétti við hinn virta Harvard-háskóla. Hann var aðeins 28 ára er hann var skipaður prófessor við skólann og hefur æ síðan getið sér gott orð sem vinsæll kennari, fræðimaður og eftir hann liggja tugir bóka sem flestar hafa vakið mikið umtal. Áhrif hans hafa ekki einskorðast við kennslustofuna, því hann hefur verið virkur þátttakandi í opinberri umræðu um mörg stærstu ágreiningsmál samtímans. Þá er hann einnig talinn meðal öflugustu verjenda samtímans.
Listaverð ritsins er 3.300 kr. Útsölustaðir ritsins eru m.a. bóksala Úlfljóts, Lögbergi, Bóksala stúdenta, Háskólatorgi, og verslanir Pennans / Eymundssonar.