Mannréttindi lögaðila – Vernd lögaðila samkvæmt mannréttindaákvæðum stjórnarskrárinnar, einkum 71. og 73. gr.
Rit þetta byggir á doktorsritgerð Eiríks Jónssonar við lagadeild Háskóla Íslands og er markmið hennar að leita svara við því hvaða verndar lögaðilar njóta samkvæmt mannréttindaákvæðum íslensku stjórnarskrárinnar, einkum 71. gr., sem mælir fyrir um friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu og tengd réttindi, og 73. gr., sem mælir fyrir um tjáningarfrelsi og tengd réttindi.
Rannsóknin varðar vernd sem ætla má að sé mörgu fólki framandi. Þannig má fullyrða að flestum þyki nokkuð sér kennilegt þegar að þeir heyra í fyrsta sinn talað um mannréttindi lögaðila. Fyrsta hugsun er gjarnan á þann veg að hrein rökvilla felist í því að tala um mannréttindi lögaðila – lögaðilar séu jú ekki mennskir og geti ekki nýtt sér vernd þeirra grundvallarréttinda sem ríki hafa ákveðið að tryggja öllum mönnum. Það verður auk þess líklega að teljast óumdeilt að vernd lögaðila falli utan helstu grunnmarkmiða sem að var stefnt þegar ríki tóku að binda mann réttindi í stjórnarskrár og þegar ríki hófu alþjóðlegt samstarf um mannréttindarvernd. Hvað sem framangreindu líður ber innlend og erlend dómaframkvæmd með sér að lögaðilar njóta mannréttinda að talsverðu marki. Virðist þróunin ótvírætt hafa verið í átt til aukinna réttinda lögaðila að þessu leyti, þótt þróunin sé ekki að öllu leyti einhlít og ríki hafi nálgast spurninguna um mannréttindi lögaðila með nokkuð mismunandi hætti.
Í fyrsta kafla ritsins er gerð grein fyrir þeim aðferðafræðilegu sjónarmiðum sem höfundur leggur til grundvallar við rannsóknina en sú umfjöllun ber með sér til hvaða heimilda og sjónarmiða litið er til við leit að svörum um mannréttindavernd lögaðila. Í öðrum kafla er fjallað um stöðu lögaðila gagnvart mannréttindakafla stjórnarskrárinnar sem heildar. Í þriðja kafla er fjallað um vernd lögaðila samkvæmt 73. gr. stjórnarskrárinnar og í fjórða kafla um vernd lögaðila samkvæmt 71. gr. stjórnarskrárinnar. Hver þessara kafla hefur það markmið að veita svör um vernd lögaðila samkvæmt þeim ákvæðum sem eru rannsóknarandlag kaflans og í öllum köflunum er litið til sömu þátta við leit að svörum. Þannig er fyrst litið til stöðu lögaðila gagnvart alþjóðasamningum um mannréttindi, þá til texta viðkomandi ákvæða og lögskýringargagna, næst til dómaframkvæmdar, þá til skrifa fræðimanna, síðan til kennilegs grundvallar ákvæðanna og loks til stjórnskipulegrar verndar lögaðila í öðrum ríkjum. Eftir greiningu á öllum þessum þáttum dregur höfundur ályktanir um stöðu lögaðila gagnvart þeim ákvæðum sem eru rannsóknarandlag kaflans. Í 5. kafla, að aflokinni framangreindri greiningu, eru síðan helstu meginniðurstöður dregnar saman sem og hin réttarlega þýðing þeirra. Auk þess setur höfundur fram hugleiðingar sínar um niðurstöðurnar og framtíðina á þessu sviði.
Sem fyrr segir er markmið rannsóknarinnar að leita svara við því hvaða verndar lögaðilar njóti samkvæmt mannréttindaákvæðum íslensku stjórnarskrárinnar, einkum 71. og 73. gr. – spurningu sem höfundur telur að talsverðu leyti ósvarað í íslenskum fræðiskrifum en geti haft bæði fræðilegt og hagnýtt gildi.
Listaverð ritsins er 12.450 kr. Útsölustaðir ritsins eru m.a. bóksala Úlfljóts, Lögbergi, Bóksala stúdenta, Háskólatorgi, og verslanir Pennans / Eymundssonar.