Að iðka lögfræði – Inngangur að hinni lagalegu aðferð
eftir Hafstein Dan Kristjánsson
Til að komast að því hver lögin eru þarf að kunna skil á hinni lagalegu aðferð. Bókinni er ætlað að gera hana og lögfræðilega hugsun aðgengilega fyrir þá sem vilja kynna sér þessi efni, hvort sem það eru byrjendur að stíga sín fyrstu skref, lengra komnir sem vilja rifja upp fræðin eða þeir sem aðeins vilja rétt dreypa á veigum lögfræðinnar. Leitast er við að gera þessum atriðum skil á skorinorðan og skýran hátt. Í hverjum hluta er fyrst gerð grein fyrir umfjöllunarefni hans og í lokin er dregið saman hvaða lærdóm má draga af umfjöllunarefninu. Þá eru mikilvæg efnisatriði sett fram á myndrænan hátt.
Bókin skiptist í fjóra hluta. Í fyrsta hluta er fjallað með almennum hætti um lögfræði og störf lögfræðinga. Farið er almennum orðum um hina lagalegu aðferð og lögfræðilega hugsun. Í stuttu máli er grunnhugmyndin sú að lagaleg niðurstaða verður að vera reist á réttum heimildum og fengin með því að beita þessum heimildum á réttan hátt. Þessu tengdu er mikilvægt að aðskilja persónulegar skoðanir á efni málsins frá lagalegum niðurstöðum. Þá er stuttlega gerð grein fyrir tengslum lögfræði við aðrar lærdómsgreinar á borð við réttarheimspeki og tengslum laga við réttlæti og réttarríkið. Einnig er fjallað um helstu réttarsvið og stofnanir íslensks réttar og hvar er hægt að finna lögin. Í öðrum hluta er fjallað um hverjar eru réttu heimildirnar, þ.e. um réttarheimildir (réttarheimildafræði). Í þriðja hluta er tekið til skoðunar hvernig ber að beita einni tiltekinni tegund réttarheimildar, þ.e. hvernig ber að túlka lagaákvæði (lögskýringarfræði). Að lokum er í fjórða hluta fjallað um réttindi, reglur og stofnanir, þ. á m. stofnanaleg sjónarmið.