Fasteignir og fasteignakaup, e. Viðar Má Matthíasson
Bókaútgáfan Codex hefur nú gefið út ritið Fasteignir og fasteignakaup, en höfundur þess er Viðar Már Matthíasson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands.
Meginmarkmið þessa rits, sem er í fjórum hlutum, er að fjalla um réttarreglur um fasteignakaup, þ.e. hinar kröfuréttarlegu reglur, sem gilda um það efni. í því felst, að viðfangsefnið er einkum að gera grein fyrir stofnun kaupsamninga um fasteignir, skyldum aðilja að slíkum samningum og reglum um vanefndaúrræði, þegar annar hvor aðilinn efnir ekki skyldur sínar. Umfjöllunin er fyrst og fremst reist á nýjum lögum nr. 40/2002 um fasteignakaup (fkpl.) sem og dómum, er haft geta þýðingu til skýringar um gildandi rétt. Eftir gildistöku fkpl. hefur vægi eldri dóma óhjákvæmilega minnkað nokkuð, en svo sem fram mun koma, hafa dómsúrlausnir þó enn verulega þýðingu. Loks verður að geta þess, að reglum fkpl. þarf að lýsa í víðara samhengi, þ.e. í samhengi við almennar reglur kröfuréttar að því leyti, sem þess er nokkur kostur. Reglum um fasteignakaup er því lýst frá því sjónarhorni, að um sé að ræða sérstakan hluta kröfuréttar.
Í I. hluta ritsins eru nokkrir inngangskaflar, m.a. lýsing á því hvar fasteignakauparéttur er staðsettur í fræðikerfi lögfræðinnar, hvernig háttað sé löggjöf á þessu sviði á öðrum Norðurlönd­um o.fl.
Í II. hluta er á hinn bóginn fjallað um ýmsar reglur um fasteignir. Sú umfjöllun er mun ítarlegri og víðtækari að efni til, en var í eldra riti höfundar, Fasteignakaup – helztu réttarreglur, sem gefið var út af Bókaútgáfu Orators árið 1997. Ástæðan fyrir þessari breytingu er fyrst og fremst sú, að það er þörf á því að gera nánari grein fyrir andlagi fasteignaviðskipta. Í því felst, að ástæða þess að fjallað er sérstaklega um fasteignir í þessu riti, er fyrst og fremst sú, að það þjónar meginmarkmiði ritsins um að lýsa réttarreglum um fasteignakaup. Þess vegna verður umfjöllun um fasteignir fyrst og fremst til yfirlits um reglurnar, sem um þær gilda. Umfjölluninni er ætlað að veita aukinn skilning á andlagi fasteignakaupa og spara á stundum sérstakar greinargerðir um efni fasteignaréttar, sem ella kynni að vera þörf. Efni II. hluta ritsins verður því að skoða sem stuðningsefni við umfjöllunina um hinar kröfuréttarlegu reglur um fasteignakaup. Framsetning á reglum um fasteignir, jafnvel innan þess ramma sem henni er settur í þessu riti, verður þó hvorki fugl né fiskur, nema það sé gert af nokkurri nákvæmni. Framsetningin þarf að vera heildstæð. Þess vegna er ástæða til, að fjalla ekki aðeins um fasteignarhugtakið og merki fasteigna, heldur um fasteignaréttindi, um skráningu fasteigna og réttinda yfir fasteignum, svo og um stofnun fasteigna. Er leitast við að fullnægja kröfum um heildstæða umfjöllun um fasteignir, sem þó er eingöngu hugsuð sem grundvöllur umfjöllunar um fasteignakaup í III. hluta ritsins.
Í IV. hluta ritsins verður fjallað um þær reglur, sem gilda um milligöngumenn um fasteignakaup. Til þess er rík ástæða. í fyrsta lagi vegna þess, að löggiltir fasteigna-, fyrirtækja- og skipasalar (hér eftir nefndir löggiltir fasteignasalar eða fasteignasalar, nema annað sé tekið fram) hafa einkaleyfi til að hafa milligöngu um sölu fasteigna. Einkarétturinn á ekki aðeins við, þegar slík milliganga er gerð í atvinnuskyni, heldur er öðrum bannað að hafa slíka milligöngu, þótt það sé aðeins í einstakt skipti. Frá því er reyndar gerð undantekning um hæstaréttar- og héraðsdómslögmenn, en það er einungis í afmörkuðum tilvikum. Af þessu leiðir, að eigendaskipti að fasteignum fara almennt ekki fram nema fyrir milligöngu löggiltra fasteignasala. Um löggilta fasteignasala og milligöngu þeirra gilda sérstök lög, þ.e. lög um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa, nr. 99/2004, hér eftir nefnd fsl. Í þeim lögum er m.a. að finna ýmsar reglur um störf og starfsháttu fasteignasala. Sumar þessara reglna lúta að upplýsingaskyldu fasteignasala til væntanlegra kaupenda, sbr. t.d. skyldur hans til þess að semja og kynna fyrir væntanlegum kaupanda söluyfirlit um fasteignina, sbr. 10.-12. gr. fsl. Seljandi fasteignar á samkvæmt 3. mgr. 10. gr. fsl. að undirrita söluyfirlit til staðfestu því að efni þess sé samkvæmt beztu vitund hans. Í þessu felst, að reglur um störf og starfsháttu fasteignasala hafa að nokkru leyti bein tengsl við réttarstöðu seljanda í fasteignakaupum. Það er m.a. af þeim ástæðum nauðsynlegt, að gera nokkra grein fyrir þeim reglum, sem gilda um löggilta fasteignasala og störf þeirra.
Listaverð ritsins er kr. 8.610. Útsölustaðir eru m.a. bóksala Úlfljóts, Lögbergi, Bóksala stúdenta, Háskólatorgi og Eymundsson, Holtagörðum.

© Copyright - Bókaútgáfan Codex