Kynferðisbrot – Dómabók, e. Ragnheiði Bragadóttur.

Bókaútgáfan Codex hefur nú gefið út ritið Kynferðisbrot – Dómabók eftir Ragnheiði Bragadóttur. Riti þessu er ætlað að gefa tæmandi lýsingu á dómaframkvæmd Hæstaréttar í kynferðisbrotamálum á 17 ára tímabili, frá ársbyrjun 1992 til ársloka 2008. Dómarnir eru flokkaðir eftir þeim lagaákvæðum sem ákært er fyrir og reifaðir eftir fyrirfram gefnum viðmiðunum. Gerð er grein fyrir sakarefni og ákæruatriðum hvers dóms, málavöxtum, framburði ákærðra og vitna og öðrum atriðum sem máli skipta við sönnun. Fjallað er um rök fyrir sekt eða sýknu og gerð grein fyrir þeim sjónarmiðum sem koma til athugunar við ákvörðun refsingar.

Dómareifanirnar eru meginumfang bókarinnar. Á eftir þeim koma dómayfirlit. Þar má sjá örstutta lýsingu á málavöxtum, lagaákvæði sem ákært er fyrir og dæmt, auk refsingar í sakfellingardómum. Á eftir yfirlitunum kemur tölfræðileg úrvinnsla og yfirlitstafla um alla dómana.

Bókin er fyrst og fremst fræðirit, ætluð þeim sem fjalla um kynferðisbrotamál í störfum sínum, til kennslu í refsirétti og afbrotafræði og sem grundvöllur frekari rannsókna. Hún nýtist þó einnig sem öflugt uppflettirit og er aðgengileg öllum þeim sem láta sig varða þetta svið réttarins, bæði lærðum og leikum.

Listaverð ritsins er kr. 7.750. Útsölustaðir ritsins eru m.a. bóksala Úlfljóts, Lögbergi, Bóksala stúdenta, Háskólatorgi, verslanir Pennans / Eymundssonar, og Bókabúð Máls og menningar, Laugavegi.

© Copyright - Bókaútgáfan Codex