Bókaútgáfan Codex hefur nú gefið út ritið Lagavangur eftir Pál Sigurðsson prófessor.

Bókin hefur að geyma þrettán ritgerðir, sem fjalla um lög, forn og ný, eins og bókarheitið gefur til kynna.

Réttarsvið þau, sem bókin fjallar um, eru fimm talsins. Af sviði fjölmiðlaréttar eru tvær ritgerðir, þ.e. um fjölmiðlalögin nýju og um tjáningarfrelsi akademískra starfsmanna. Undir samanburðarlögfræði heyrir grein um grísku borgaralögbókina og um gríska réttarþróun. Almennum persónurétti tengist grein, er nefnist „Guðlast í aldanna rás – Sérstæður refsidómur vegna guðlöstunar.“ Fimm ritgerðir fjalla um íslenska réttarsögu, þ.e. greinar um aftökur dæmdra manna forðum daga og um aftökustaði og „aftökuörnefni“ á Suðvesturlandi, um hefndir og hefndarrétt, um brot gegn grafarfriði og utangarðsmenn, um sérkennilega og afar harða löggjöf um refsingar þjófa í kjölfar móðuharðindanna, og að síðustu um þróun reglna um sjálfstæði dómstólanna.

Að lokum eru í bókinni fjórar greinar um íslenska lagamenn fyrri tíðar, sem voru uppi áður en lagakennsla hófst hér á landi. Fjalla þær um fyrstu íslensku kennslubókina í lögfræði eftir Svein Sölvason, um umdeilda danska þýðingu á Jónsbók frá 18. öld, um lögfræðileg ritstörf Magnúsar Ketilssonar sýslumanns, og um réttarsögurannsóknir Vilhjálms Finsen hæstaréttardómara.

© Copyright - Bókaútgáfan Codex