Lög um meðferð sakamála ásamt greinargerð, dóms- og kirkjumálaráðuneytið

Bókaútgáfan Codex og dóms- og kirkjumálaráðuneytið hafa nú gefið út ritið Lög um meðferð sakamála ásamt greinargerð.

Hinn 1. janúar sl. tóku gildi lög um meðferð sakamála nr. 88/2008. Hin nýju lög leysa af hólmi lög um meðferð opinberra mála nr. 19/1991. Við samningu sakamálalaganna fór fram gagnger endurskoðun á eldri lögum um meðferð opinberra mála og hafa sakamálalögin að geyma ýmsar nýjungar. Má þar nefna skiptingu ákæruvaldsins í þrjú stjórnsýslustig, stofnun nýs embættis héraðssaksóknara o.fl.

Efnisskipan ritsins er með þeim hætti að fyrst er að finna almennar athugasemdir sem fylgdu frumvarpinu. Þá kemur hver og einn þáttur laganna er greinist í aðskilda kafla. Í köflunum er svo að finna einstakar greinar laganna. Í upphafi hvers þáttar og kafla er að finna þær athugasemdir sem fylgdu í frumvarpi til laganna. Hið sama á við um hverja lagagrein. Einnig er að finna athugasemdir við einstakar breytingar sem gerðar voru á lögunum við meðferð málsins á Alþingi og hafa breytingar samkvæmt lögum nr. 156/2008 verið felldar inn í texta laganna.

Þá er í riti þessu tekin upp sú nýbreytni, þegar það á við, að í kjölfar athugasemda við hverja lagagrein er vísað til dóma Hæstaréttar um hliðstætt ákvæði í eldri lögum nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála sem hafa má til hliðsjónar. Byggt er á þeirri flokkun er fram kemur í riti Eiríks Tómassonar prófessors, Dómar í sakamálaréttarfari 1990-2007, sem er væntanlegt frá Bókaútgáfunni Codex. Í lok ritsins er að finna svonefndan lagalykil, þar sem ákvæði laga nr. 88/2008 eru borin saman við ákvæði annarra laga, þá sérstaklega laga nr. 19/1991. Er vonast til þess að ritið auðveldi aðgang að lögunum og þeim sjónarmiðum sem þau byggja á sem og að það muni reynast handhægt hjálpargagn fyrir ákærendur og lögmenn.

© Copyright - Bókaútgáfan Codex