Lögfræðiorðabók – með skýringum

Bókaútgáfan Codex og Lagastofnun Háskóla Íslands hafa gefið út ritið Lögfræðiorðabók – með skýringum. Ritið er hið fyrsta sinnar tegundar hér á landi og inniheldur hátt á þrettánda þúsund flettiorð úr íslensku lagamáli, bæði úr gildandi og eldra rétti, ásamt viðeigandi skilgreiningum og skýringum. Að baki verkinu liggur umfangsmikil vinna á vegum Lagastofnunar undir ritstjórn dr. Páls Sigurðssonar prófessors. Fjölmargir sérfræðingar á hinum ýmsu sviðum lögfræðinnar komu að skýringu hugtaka af sínum réttarsviðum, flestir þeirra kennarar við lagadeild Háskóla Íslands.

Eftirfarandi er dæmi úr ritinu um skýringu á lögfræðilegu hugtaki, sem nýverið bar á góma í fjölmiðlaumræðu: „borgaraleg óhlýðni Það að borgarar hlýðnast ekki fyrirmælum yfirvalda, á hugsjónagrundvelli, þ.e. ef þeir telja fyrirmælin stangast á við grunnreglur siðgæðis og réttlætis, enda þótt þau kunni að samræmast lagaákvæðum. Felst þá í hugsuninni að mönnum beri í raun réttri skylda til, sem dyggum borgurum, að óhlýðnast fyrirmælunum …“ Nefna má fleiri orð sem skýrð eru í ritinu og mikilvægt er að gera skýran greinarmun á í umræðu á vettvangi lögfræði, t.d. dómur og úrskurður, kæra og ákæra, o.fl.

Ritið hefur ótvírætt notagildi fyrir lögfræðinga, einkum dómara, lögmenn og starfsmenn stjórnsýslunnar, sem og þá sem koma að samningu laga og reglna. Jafnframt getur ritið nýst laganemum við að skilja og beita hinu fjölskrúðuga íslenska lagamáli. Ritið er ekki síður gagnlegt fjölmiðlamönnum í þeirra störfum, en fréttaflutningur af lögfræðilegum málefnum vegur þar að jafnaði þungt. Síðast en ekki síst er ritinu ætlað að höfða til alls almennings í landinu og stuðla þannig að auknum skilningi á lögfræðilegri orðræðu, en með réttri notkun orða og hugtaka og þekkingu á þeim verður almenn umfjöllun um dómsmál og lögfræðileg málefni bæði aðgengilegri og markvissari.

Listaverð ritsins er kr. 9.900. Útsölustaðir ritsins eru m.a. bóksala Úlfljóts, Lögbergi, Bóksala stúdenta, Háskólatorgi og Eymundsson, Holtagörðum.

© Copyright - Bókaútgáfan Codex