Mannréttindasamningar Sameinuðu þjóðanna, Mannréttinda-stofnun Háskóla Íslands

Bókaútgáfan Codex og Mannréttinda-stofnun HÍ hafa gefið út ritið Mannréttindasamningar Sameinuðu þjóðanna – Meginreglur, framkvæmd og áhrif á íslenskan rétt. Í ritinu er fjallað um helstu mannréttindasamninga SÞ sem Ísland er aðili að, meginreglur þeirra og túlkun. Lýst er framkvæmd nefnda sem hafa eftirlit með samningunum og álitum þeirra í kærumálum um mannréttindabrot. Sérstaklega er varpað ljósi á stöðu samninganna að íslenskum rétti og krufin áhrif þeirra á lagasetningu og lagaframkvæmd sem hafa aukist stórlega síðustu tvo áratugi. Ritið hefur hagnýtt gildi fyrir bæði laganema og lögfræðinga sem vinna í íslensku réttarkerfi eða stjórnsýslu en ekki síður fyrir alla þá sem hafa áhuga á alþjóðlegum og innlendum reglum um vernd mannréttinda og tengslum þar á milli.

Höfundar efnis eru sérfræðingar á sviði mannréttinda og hafa víðtæka reynslu af störfum og rannsóknum tengdum þeim viðfangsefnum sem þeir rita um. Þeir hafa m.a. starfað á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, við kennslu og rannsóknir í mannréttindum við innlenda og erlenda háskóla og hjá stofnunum sem annast framkvæmd mannréttindasamninga að innanlandsrétti. Höfundar eru: Björg Thorarensen, Elsa S. Þorkelsdóttir, Guðmundur Alfreðsson, Hrefna Friðriksdóttir, Jakob Þ. Möller, Kjartan Bjarni Björgvinsson, Kristín Benediktsdóttir og Róbert R. Spanó.

Listaverð ritsins er kr. 9.300. Útsölustaðir ritsins eru m.a. bóksala Úlfljóts, Lögbergi, Bóksala stúdenta, Háskólatorgi, verslanir Pennans / Eymundssonar og Bókabúð Máls og menningar, Laugavegi.

© Copyright - Bókaútgáfan Codex