Bókaútgáfan Codex hefur nú gefið út ritið Markaðssvik eftir Aðalstein E. Jónasson. Ritið hefur að geyma heildstæða umfjöllun um löggjöfina sem gildir á þessu sviði, þ.e. ákvæði laga um verðbréfaviðskipti um upplýsingaskyldu skráðra félaga, viðskipti innherja og markaðsmisnotkun. Í bókinni er vikið að ástæðum þess að löggjöfin er svona ströng, hvaða hagsmuni henni er ætlað að vernda og hvernig hún hefur þróast innan Evrópusambandsins og hér á landi fyrir og eftir bankahrunið haustið 2008.

Markmiðið með ritinu er að auðvelda þeim sem vinna á og í tengslum við markaði með fjármálagerninga að tileinka sér þetta regluverk og þar með starfa í takt við það. Hún er hugsuð fyrir fjárfesta, starfsmenn fjármálafyrirtækja, eftirlitsaðila, lögmenn, dómara, endurskoðendur, fjölmiðla, laganema og aðra sem vinna með regluverkið á einn eða annan hátt.

Höfundur bókarinnar, Aðalsteinn E. Jónasson, er hæstaréttarlögmaður og einn af meðeigendum LEX. Hann hefur víðtæka reynslu af starfsemi fjármálafyrirtækja, bæði frá sjónarhorni fræðimanns og lögmanns. Hann lauk embættisprófi frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1992 og LL.M.-gráðu frá Harvard Law School árið 2000. Hann öðlaðist málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi árið 1993 og Hæstarétti árið 1998. Auk þess var hann lektor og síðar dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík árin 2002 til 2011. Aðalsteinn var nýverið skipaður sem einn 15 dómara við Landsrétt, sem tekur til starfa í ársbyrjun 2018.

Útsölustaðir ritsins eru bóksala Úlfljóts, Lögbergi; Bóksala stúdenta, Háskólatorgi; valdar verslanir Pennans/Eymundssonar og einnig er hægt að versla ritið á heimasíðu Heimkaupa, www.heimkaup.is.

© Copyright - Bókaútgáfan Codex