Bókaútgáfan Codex hefur nú gefið út ritið Ne bis in idem – Bann við endurtekinni málsmeðferð vegna refsiverðrar háttsemi samkvæmt 4. gr. 7. viðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu og áhrif þess á íslenskan rétt eftir Róbert R. Spanó. Í 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka við mannréttindasáttmála Evrópu (hér eftir MSE) er mælt fyrir um bann við endurtekinni málsmeðferð vegna refsiverðrar háttsemi eða tvöfaldri refsingu (l. ne bis in idem – ekki tvisvar fyrir það sama). Þetta ákvæði hefur, eins og önnur ákvæði sáttmálans og viðauka við hann, verið lögfest hér á landi. Í þessu riti er fjallað með almennum hætti um gildissvið og einstök skilyrði reglunnar og áhrif hennar á íslenskan rétt. Sú rannsókn sem býr að baki ritinu fólst í því að kanna allar fyrirliggjandi úrlausnir, þ.e. ákvarðanir um meðferðarhæfi kæru og dóma, úr réttarframkvæmd Mannréttindanefndar Evrópu og Mannréttindadómstóls Evrópu um túlkun á 4. gr. 7. viðauka við MSE til 1. nóvember 2011. Leitast var við að greina og flokka úrlausnirnar með það í huga að geta dregið ályktanir um inntak og gildissvið 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka. Var þá einnig litið til dómaframkvæmdar í norrænum rétti, einkum Hæstaréttar Noregs og Svíþjóðar, og til skrifa fræðimanna um þetta viðfangsefni. Í bókinni er á grundvelli ályktana um inntak efnisskilyrða 4. gr. 7. viðauka leitast við að varpa ljósi á áhrif bannreglunnar á gildandi lög og lagaframkvæmd í íslensku sakamálaréttarfari, stjórnsýslurétti og stjórnskipunarrétti.

Uppbygging bókarinnar er á þá leið að henni er skipt í þrjá hluta sem skiptast í 11 kafla. Í fyrsta hluta verður vikið að almennum atriðum um réttaráhrif dóma og þeim sjónarmiðum sem búa að baki slíkum reglum. Samhengisins vegna er slík umfjöllun nauðsynleg í upphafi. Í öðrum hluta er fjallað um gildissvið 1. mgr. 4. gr. 7. viðauka. Í þriðja hluta, sem er meginhluti bókarinnar, er varpað ljósi á efnisskilyrði reglunnar. Í einstökum köflum er samhliða umfjöllun um 4. gr. 7. viðauka við MSE vikið að þeim reglum íslensks réttar sem þýðingu hafa fyrir viðfangsefnið og fjallað með gagnrýnum hætti um dómaframkvæmd Hæstaréttar þar sem reynt hefur á ne bis in idem.

Listaverð ritsins er kr. 6.820. Útsölustaðir ritsins eru bóksala Úlfljóts, Lögbergi, Bóksala stúdenta, Háskólatorgi, og verslanir Pennans/Eymundssonar.

© Copyright - Bókaútgáfan Codex