Bókaútgáfan Codex hefur nú gefið út ritið

Opinbert markaðseftirlit eftir Eirík Jónsson, Friðrik Ársælsson og Kristínu Benediktsdóttur.

Eftirlit hins opinbera með fjármála- og viðskiptamarkaðnum hér á landi hefur verið talsvert í sviðsljósinu á undanförnum árum. Ritinu er ætlað að gefa yfirlit yfir helstu stjórnvöld sem sinna slíku eftirliti og þær réttarreglur sem um starfsemi þeirra gilda.

Ritið er byggt upp þannig að það skiptist í tvo hluta. Fyrri hlutinn samanstendur af fjórum köflum sem varða eftirlitsstjórnvöld almennt, meðal annars reglur stjórnskipunarréttar og stjórnsýsluréttar sem setja starfsemi þeirra ramma og afleiðingar réttarbrota í stjórnsýslu eftirlitsstofnana. Seinni hluti ritsins hefur að geyma þrjá kafla sem fjalla hver um sitt stjórnvaldið: Samkeppniseftirlitið, Fjármálaeftirlitið og Neytendastofu. Í þeirri umfjöllun er vikið nánar að stjórnsýslulegri stöðu, valdheimildum og úrræðum þessara stjórnvalda.

Ritinu er fyrst og fremst ætlað að bæta úr skorti á heildstæðri umfjöllun um opinbert markaðseftirlit hér á landi, einkum við kennslu í lögfræði. Efnistökum og framsetningu er þó hagað með þeim hætti að bókin komi að notum sem handhægt rit fyrir starfandi lögfræðinga og lögmenn og aðra sem glíma við álitaefni sem tengjast opinberu markaðseftirliti hér á landi.

Listaverð ritsins er 8.530 kr. Útsölustaðir ritsins eru m.a. bóksala Úlfljóts, Lögbergi, Bóksala Stúdenta, Háskólatorgi, og verslanir Pennans/Eymundssonar.

© Copyright - Bókaútgáfan Codex