Bókaútgáfan Codex hefur nú gefið út ritið Stjórnarskráin, Mannréttindasáttmáli Evrópu og meginreglur refsiréttar eftir Róbert R. Spanó, prófessor og forseta lagadeildar Háskóla Íslands.

Í bókinni er fjallað um 1. mgr. 68. og 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og varpað ljósi á samspil þeirra og ákvæða 3. og 7. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Uppbygging bókarinnar er með þeim hætti að í fyrsta hluta hennar, kafla 2, er vikið almennum orðum að réttarheimildafræðilegu samspili stjórnarskrárinnar og Mannréttindasáttmála Evrópu. Í öðrum hluta, köflum 3-11, er fjallað um bann við pyndingum og annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu í 1. mgr. 68. gr. stjskr. og 3. gr. MSE. Því næst er í þriðja hluta, köflum 12-16, vikið að grundvallarreglunni um lögbundnar refsiheimildir í 1. mgr. 69. gr. stjskr. og 7. gr. MSE. Í fjórða hluta ritsins, köflum 17-20, er fjallað um regluna um bann við afturvirkni refsilaga og loks er í fimmta hluta, köflum 21-27, gerð ítarleg grein fyrir grundvallarreglunni um skýrleika refsiheimilda sem á sér stoð í sömu ákvæðum. Er sjónum þar meðal annars beint að dómi Landsdóms frá 23. apríl 2012 í máli nr. 3/2011, Alþingi gegn Geir H. Haarde, en þar reyndi á álitamál um skýrleika refsiheimilda laga nr. 4/1963 um ráðherraábyrgð og tiltekinna ákvæða stjórnarskrárinnar.

Listaverð ritsins er 8190 kr. en félögum í bókaklúbb Bókaútgáfunnar Codex gefst tækifæri til þess að festa kaup á þessu vandaða riti á hinu hagstæða bókaklúbbsverði, þ.e. með 20% afslætti af listaverði, eða á 6552 kr.

© Copyright - Bókaútgáfan Codex