Stjórnskipunarréttur – Undirstöður og handhafar ríkisvalds
eftir Björgu Thorarensen

Ritið fjallar um almennan hluta stjórnskipunarréttar, undirstöður og einkenni stjórnskipunar Íslands, meðferð ríkisvalds og takmörk þess. Markmið þess er að greina með heildstæðum hætti grunnhugtök og kenningar sem stjórnskipunin hvílir á og hvernig þær birtast í störfum þriggja handhafa ríkisvalds, löggjafarvalds, framkvæmdarvalds og dómsvalds. Rannsóknin beinist að stórum hluta að stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, forsögu hennar, inntaki og túlkun. Þá er lýst óskráðum reglum og venjum sem ásamt leikreglum stjórnmálanna mynda hina efnislegu stjórnskipun. Gerður er samanburður við þróun og stöðu stjórnskipunar annarra Evrópuríkja með áherslu á Norðurlönd.

Bókin skiptist í tvo hluta. Í fyrri hlutanum er sjónum beint að undirstöðum og einkennum stjórnskipulagsins. Rannsakaðar eru helstu kenningar og hugtök sem liggja til grundvallar stjórnkerfum vestrænna lýðræðisríkja. Hlutverk og staða íslensku stjórnarskrárinnar er greind m.a. í ljósi sögulegs uppruna hennar. Ítarlega er lýst ört vaxandi áhrifum alþjóðasamvinnu á íslenskan rétt og stjórnskipun á síðustu áratugum, einkum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og Mannréttindasáttmála Evrópu. Í síðari hluta bókarinnar er sýnt fram á hvernig hugmyndafræðilegar undirstöður birtast í störfum æðstu handhafa ríkisvalds. Gerð er grein fyrir stjórnskipulegri stöðu og störfum Alþingis, ríkisstjórnar og ráðherra og forseta Íslands. Þá er rannsakað hvernig eftirlit og aðhald með ríkisvaldi birtist. Dómaframkvæmd er rakin með áherslu á eftirlitshlutverk dómstóla til að tempra vald annarra handhafa ríkisvalds.

Bókin er ætluð þeim sem vinna að rannsóknum í stjórnskipunarrétti og framkvæmd stjórnskipunarreglna í þingstörfum og stjórnmálum, stjórnsýslu og dómskerfinu svo og þeim sem stunda háskólanám í lögfræði, stjórnmálafræði eða öðrum félagsvísindum og hugvísindum.

Fyrir áhugasama kaupendur erlendis má sjá upplýsingar um bókina á vefsíðu Amazon hér.

Sjá ensku.

© Copyright - Bókaútgáfan Codex