Viðskiptabréf, 2. útgáfa e. Pál Hreinsson

Bókaútgáfan Codex hefur nú gefið út 2. útgáfu ritsins Viðskiptabréf eftir dr. jur. Pál Hreinsson. Meginefni ritsins er sem fyrr viðskiptabréfsreglur. Í þessari 2. útgáfu ritsins hefur höfundur rannsakað með skipulegum hætti þá dóma er varða skuldabréf og önnur viðskiptabréf sem hafa gengið í kjölfar uppgjörs á hinum föllnu bönkum í bankahruninu. Þannig hafa gengið margir dómar sem varpa skýru ljósi á þær óskráðu meginreglur sem gilda í íslenskum rétti um skuldabréf. Má þar t.d. nefna dóma um gjalddaga, lausnardag og forsendur fyrir uppgreiðslurétti skuldara, breyting á greiðslustað eða greiðslu­fyrir­komulags skuldabréfs, túlkun á samningsbundnum gjaldfellingar­heim­ildum og ráð­stöfðun greiðslu sem ekki hrekkur til fullra efnda skuldabréfs svo og um túlkun ákvæða skuldabréfa á milli upphaflegs skuldara og kröfuhafa. Í ritinu er einnig fjallað um dóma, sem varpa ljósi á ný tilvik er varða viðskiptabréfsreglur um skuldabréf, s.s. um mótbárutap skuldara og réttindamissi þriðjamanns.

Markmiðið með ritinu er að setja efni þess fram á kerfisbundinn hátt svo auðvelda megi þeim sem vinna með skuldabréf í störfum sínum að tileinka sér þær fjölmörgu óskráðu reglur sem um þau gilda. Ritið er því ómissandi fyrir lögmenn, dómara og starfsmenn fjármálafyrirtækja, auk þess sem það er ætlað laganemum.

Höfundur ritsins, dr. jur. Páll Hreinsson, er forseti EFTA-dómstólsins og fyrrverandi hæstaréttardómari. Hann gengdi starfi dósents og prófessors við lagadeild Háskóla Íslands um 10 ára skeið og kenndi þá m.a. þætti í kröfurétti um skuldabréf og viðskiptabréfsreglur.

© Copyright - Bókaútgáfan Codex