Kröfuréttur III e. Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Eyvind G. Gunnarsson

Ritið Kröfuréttur III eftir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Eyvind G. Gunnarsson er komið út og fjallar ritið um aðilaskipti og lok kröfuréttinda. Um er að ræða lokaritið í þriggja binda ritröð höfunda um almennan hluta kröfuréttar. Kröfuréttur I kom út árið 2009 og fjallaði um efndir kröfu og Kröfuréttur II kom út árið 2011 og fjallaði um vanefndaúrræði. Þessi ritröð er afrakstur yfirgripsmikilla rannsókna höfunda á fjármunarétti og markar tímamót þar sem áður hafa ekki komið út jafn ítarleg rit um kröfurétt hér á landi.

Ritið skiptist í níu kafla og fjalla fyrstu þrír þeirra um meginreglur um aðilaskipti, kröfuhafaskipti og skuldaraskipti. Næstu þrír kaflarnir fjalla um lok kröfuréttinda og efndir, rétt kröfuhafa til viðbótargreiðslu og endurheimtu ofgreidds fjár. Að því búnu er í síðustu köflunum fjallað um tómlæti og fyrningu.

Í ritinu er vísað til mikils fjölda dóma og eru þeir reifaðir eftir því sem ástæða er til í því skyni að varpa ljósi á efnið. Jafnframt hafa allar helstu norrænar heimildir verið kannaðar við samningu ritsins og er eftir föngum vísað til þeirra.

Ritið er fræðirit ætlað til kennslu en gagnast einnig öllum lögfræðingum sem vilja kynna sér reglur kröfuréttar. Hefur ritið þá mikið hagnýtt gildi enda reynir í miklum mæli á kröfurétt fyrir dómstólum. Þá er gagn af ritinu fyrir alla lögfræðinga sem þurfa að takast á við fjölmörg álitamál í fjárhagslegum lögskiptum.

Höfundar ritsins eru sem fyrr segir Þorgeir Örlygsson, forseti Hæstaréttar Íslands, Benedikt Bogason, dómari við Hæstarétt Íslands og prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands og Eyvindur G. Gunnarsson, prófessor við Lagadeild Háskóla Íslands.

© Copyright - Bókaútgáfan Codex