Túlkun lagaákvæða, 2. útgáfa, e. Róbert R. Spanó
Í riti þessu hefur höfundur yfirfarið allt efni fyrstu útgáfu sem kom út á árinu 2007 og sem hefur verið kennd í laganámi síðan. Í þessari annarri útgáfu hefur höfundur yfirfarið allt efni ritsins og bætt við úrlausnum úr dómaframkvæmd Hæstaréttar Íslands á tímabilinu frá 2007 til 2019 og dóma Landsréttar frá 1. janúar 2018 þar sem reynir á álitaefni á sviði lögskýringarfræði. Þá hefur eins og í fyrstu útgáfu verið horft til álita umboðsmanns Alþingis sem birt hafa verið á sama tímabili og varpa ljósi á þróunina á þessu sviði. Einnig hefur verið bætt við nýjum kafla um áhrif mannréttindasáttmála Evrópu við túlkun lagaákvæða auk þess sem fjallað er nú sérstaklega um túlkunarreglu 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið og þróun hennar í réttarframkvæmd hér á landi. Róbert R. Spanó er prófessor við lagadeild Háskóla Íslands (í leyfi) og hefur verið dómari við Mannréttindadómstól Evrópu (MDE) frá árinu 2013. Hefur hann verið varaforseti dómstólsins frá maí 2019. Áður en hann var kjörinn til dómstarfa við MDE var Róbert forseti lagadeildar Háskóla Íslands frá 2010-2013 og settur umboðsmaður Alþingis á árunum 2009-2010 og svo aftur á árinu 2013. Róbert útskrifaðist með embættispróf í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands á árinu 1997 og meistarapróf í lögfræði frá lagadeild Oxford-háskóla (University College) á árinu 2000.
Ritið er ætlað þeim sem stunda rannsóknir, kennslu og nám á sviði lögskýringarfræða. Það er einnig ómissandi fyrir lögmenn, dómara og stjórnvöld sem fást við álitaefni varðandi lögskýringarfræði.