Framkvæmd EES-samningsins á Íslandi og stjórnskipuleg álitamál, e. Margréti Einarsdóttur
Eins og nafnið gefur til kynna fjallar ritið um framkvæmd EES-samningsins og stjórnskipuleg álitamál tengd þeirri framkvæmd. Upptaka afleiddrar löggjafar í EES-samninginn og innleiðing löggjafarinnar í íslenskan rétt er viðamikið verkefni fyrir íslenska stjórnsýslu og löggjafarvald. Það kemur í hlut stjórnsýslunnar, í samvinnu við EFTA-skrifstofuna og hin EES/EFTA-ríkin, að undirbúa upptöku afleiddrar löggjafar í EES-samninginn. Þá er það verkefni stjórnsýslunnar, og eftir atvikum Alþingis, að innleiða löggjöfina í íslenskan rétt.
Í fyrri hluta ritsins er upptökuferlinu lýst með ítarlegum hætti. Þá er fjallað um innleiðingarferlið: Er innleiðingu reglugerða annars vegar og tilskipana hins vegar gerð skil, bæði þegar um er að ræða innleiðingu með settum lögum og reglugerðum.
Í seinni hluta ritsins er ljósi varpað á stjórnskipuleg álitamál sem risið hafa við framkvæmd EES-samningsins. Ekki er að finna í íslensku stjórnarskránni ákvæði sem sérstaklega heimilar framsal ríkisvalds til alþjóðastofnana. Frá gildistöku EES-samningsins þann 1. janúar 1994 hafa í nokkur skipti komið upp flókin stjórnskipuleg álitamál varðandi það hvort tilteknar ESB-gerðir sem til stendur að taka upp í EES-samninginn standist ákvæði íslensku stjórnarskrárinnar. Vísbendingar eru um að gerðum sem fela í sér slík stjórnskipuleg álitamál fari fjölgandi. Er í ritinu fjallað um nokkur nýleg tilvik, t.d. upptöku reglugerðar ESB um eftirlit með fjármálamörkuðum, persónuverndarreglugerð ESB og þriðja orkupakka ESB. Til samanburðar er fjallað um stjórnskipuleg vandamál í Noregi við upptöku ESB-gerða. Að lokum er fjallað um mikilvægi þess að sett verði ákvæði í íslensku stjórnarskrána sem heimilar framsal valds til alþjóðlegra stofnana, auk þess sem lögð er fram tillaga að slíku ákvæði.