Þjóðaréttur, 2. útgáfa, e. Björgu Thorarensen og Pétur Dam Leifsson

Bókin Þjóðaréttur eftir Björgu Thorarensen og Pétur Dam Leifsson er komin út í 2. útgáfu. Í henni er fjallað um helstu grunnþætti þjóðaréttar með áherslu á uppruna, tilurð og eðli þeirra réttarreglna sem gilda í samskiptum ríkja, alþjóðastofnana og annarra viðurkenndra þjóðréttaraðila. Efnið skiptist í tólf kafla þar sem fjallað er um viðfangsefni og þróun þjóðaréttar, réttarheimildir, aðila í þjóðarétti, landsvæði og ríkisyfirráð, réttindi og skyldur ríkja og lögsögu, þjóðréttarsamninga, þjóðréttarbrot og ábyrgð ríkja, markmið og stofnanaskipulag Sameinuðu þjóðanna, úrlausn ágreiningsmála á alþjóðavettvangi, valdbeitingu í alþjóðakerfinu, mannréttindareglur á vettvangi þjóðaréttarins, og alþjóðasamvinnu og helstu sérsvið þjóðaréttar. Ýmis svið þjóðaréttarins eru skoðuð sérstaklega frá íslensku sjónarhorni. Þar má nefna áhrif reglna hafréttar á afmörkun íslensks yfirráðasvæðis, innleiðingu og stöðu þjóðréttarsamninga að íslenskum rétti og umfjöllun um helstu alþjóðastofnanir sem Ísland á aðild að.

Bókin kom fyrst út 2011 en í þessari útgáfu hefur efnið verið endurskoðað og uppfært með tilliti til breytinga á alþjóðasamningum og lögum, þróunar í alþjóðamálum og þjóðréttarsamvinnu á undanförnum áratug svo og nýrra heimilda um efnið.

Bókin er ætluð til kennslu í þjóðarétti á háskólastigi á sviði lögfræði en nýtist einnig þeim sem áhuga hafa á alþjóðamálum á vettvangi annarra fræðigreina.

Björg Thorarensen er hæstaréttardómari. Hún starfaði um árabil sem prófessor í stjórnskipunarrétti, þjóðarétti, alþjóðlegum mannréttindum og persónuverndarrétti við Lagadeild Háskóla Íslands.

Pétur Dam Leifsson er héraðsdómari. Hann starfaði um árabil sem lektor og síðar dósent, einkum á sviði almenns þjóðaréttar, hafréttar og Evrópuréttar við Lagadeild Háskóla Íslands, áður við hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri.

© Copyright - Bókaútgáfan Codex