Stjórnskipunarréttur. Undirstöður og handhafar ríkisvalds, 2. útgáfa, e. Björgu Thorarensen
Bókin Stjórnskipunarréttur. Undirstöður og handhafar ríkisvalds eftir Björgu Thorarensen er komin út í 2. útgáfu. Hún kom fyrst út árið 2015 en hefur verið uppseld síðustu ár. Bókin er grundvallarrit um almennan hluta stjórnskipunarréttar, undirstöður og einkenni stjórnskipunar Íslands, meðferð ríkisvalds og takmörk þess. Fjallað er um grunnhugtök og kenningar sem stjórnskipunin hvílir á og hvernig þær birtast í störfum handhafa ríkisvalds. Rannsóknin beinist einkum að stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, forsögu hennar, inntaki og túlkun. Í fyrri hluta ritsins er sjónum beint að undirstöðum og einkennum stjórnskipulagsins. Ítarlega er lýst áhrifum alþjóðasamvinnu á íslenskan rétt og stjórnskipun á síðustu áratugum, einkum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið og Mannréttindasáttmála Evrópu. Í síðari hlutanum er sýnt fram á hvernig hugmyndafræðilegar undirstöður birtast í störfum æðstu handhafa ríkisvalds. Gerð er grein fyrir stjórnskipulegri stöðu og störfum Alþingis, ríkisstjórnar og ráðherra og forseta Íslands. Þá er rannsakað hvernig eftirlit og aðhald með ríkisvaldi birtist. Dómaframkvæmd er rakin með áherslu á eftirlitshlutverk dómstóla til að tempra vald annarra handhafa ríkisvalds.
Í þessari útgáfu hefur allt efni verið endurskoðað og uppfært með tilliti til lagabreytinga undanfarin ár og nýrrar dómaframkvæmdar auk fjölmargra nýrra fræðilegra heimilda.
Bókin er einkum ætluð þeim sem stunda háskólanám í lögfræði, stjórnmálafræði eða öðrum félagsvísindum svo og þeim sem vinna að rannsóknum í stjórnskipunarrétti og framkvæmd stjórnskipunarreglna.
Björg Thorarensen lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1991 og LL.M. prófi frá Edinborgarháskóla 1993 í stjórnskipunarrétti, mannréttindum og Evrópurétti. Hún starfaði um árabil sem prófessor í stjórnskipunarrétti, þjóðarétti, alþjóðlegum mannréttindum og persónuverndarrétti við Lagadeild Háskóla Íslands. Frá 2020 hefur Björg verið dómari við Hæstarétt Íslands. Björg hefur ritað fjölmargar greinar og bækur á rannsóknarsviðum sínum, þar á meðal ritið Stjórnskipunarréttur. Mannréttindi (2. útgáfa 2019) sem myndar ásamt riti þessu heildstæða útgáfu um stjórnskipunarrétt.