Starf aðstoðarmanns framkvæmdastjóra laust til umsóknar

Bókaútgáfan Codex auglýsir hér með starf aðstoðarmanns framkvæmdastjóra bókaútgáfunnar laust til umsóknar frá og með 20. febrúar næstkomandi. Leitað er eftir einum laganema til starfans, en æskilegt er að umsækjandi sé á öðru eða þriðja ári laganáms.Bókaútgáfan Codex er sjálfseignarstofnun og starfar samkvæmt samþykktri skipulagsskrá, sbr. lög nr. 33/1999. Bókaútgáfan var stofnuð árið 1987 af Orator, félagi laganema við Háskóla Íslands, og bar heitið Bókaútgáfa Orators allt til ársins 2004. Frá stofnun útgáfunnar hafa tugir rita verið gefnir út og er bókaútgáfan í fararbroddi hvað varðar útgáfu rita á sviði lögfræði. Starfsemi bókaútgáfunnar hefur vaxið af miklum krafti hin síðustu ár og er því nauðsyn á dugmiklum laganema til starfans, þannig að merkjum bókaútgáfunnar verði áfram haldið hátt á lofti.

Samkvæmt 9. gr. skipulagsskrár bókaútgáfunnar annast framkvæmdastjóri daglegan rekstur hennar. Í starfi felst meðal annars yfirumsjón bókhalds, kynningarmála sem og bókaklúbbs bókaútgáfunnar. Þá er framkvæmdastjóri í margvíslegum samskiptum við höfunda, viðskiptamenn og prentsmiðju. Þar að auki annast hann oft og tíðum samningagerð í tengslum við útgáfu einstakra rita, en jafnframt sér framkvæmdastjóri um málefni heimasíðu bókaútgáfunnar, www.bc.is. Aðstoðarmaður framkvæmdastjóra mun koma að öllum þessum verkefnum með einum eða öðrum hætti.

Stjórn Bókaútgáfunnar Codex ræður aðstoðarmann framkvæmdastjóra, sbr. áðurnefnda 9. gr. skipulagsskrár bókaútgáfunnar. Þá er rétt að geta þess að starfið er launað, en kaup og kjör fara eftir nánara samkomulagi við stjórn bókaútgáfunnar. Gert er ráð fyrir að aðstoðarmaður framkvæmdastjóra muni í fyllingu tímans taka við starfi framkvæmdastjóra bókaútgáfunnar.

Umsóknir skulu berast á netfangið bc@bc.is eigi síðar en mánudaginn 4. mars nk. og skal þeim fylgja ferilskrá og önnur gögn sem umsækjandi vill koma á framfæri. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin. Frekari upplýsingar varðandi starfsemi bókaútgáfunnar má finna á heimasíðu þessari.