Starf aðstoðarmanns framkvæmdastjóra laust til umsóknar

Bókaútgáfan Codex auglýsir hér með starf aðstoðarmanns framkvæmdastjóra bókaútgáfunnar laust til umsóknar frá og með 20. febrúar næstkomandi. Leitað er eftir einum laganema til starfans, en æskilegt er að umsækjandi sé á öðru eða þriðja ári laganáms.

Bókaútgáfan Codex er sjálfseignarstofnun og starfar samkvæmt samþykktri skipulagsskrá, sbr. lög nr. 33/1999. Bókaútgáfan var stofnuð árið 1987 af Orator, félagi laganema við Háskóla Íslands, og bar heitið Bókaútgáfa Orators allt til ársins 2004. Frá stofnun útgáfunnar hafa tugir rita verið gefnir út og er bókaútgáfan í fararbroddi hvað varðar útgáfu rita á sviði lögfræði. Starfsemi bókaútgáfunnar hefur vaxið af miklum krafti hin síðustu ár og er því nauðsyn á dugmiklum laganema til starfans, þannig að merkjum bókaútgáfunnar verði áfram haldið hátt á lofti.

Samkvæmt 9. gr. skipulagsskrár bókaútgáfunnar annast framkvæmdastjóri daglegan rekstur hennar. Í starfi felst meðal annars yfirumsjón bókhalds, kynningarmála sem og bókaklúbbs bókaútgáfunnar. Þá er framkvæmdastjóri í margvíslegum samskiptum við höfunda, viðskiptamenn og prentsmiðju. Þar að auki annast hann oft og tíðum samningagerð í tengslum við útgáfu einstakra rita, en jafnframt sér framkvæmdastjóri um málefni heimasíðu bókaútgáfunnar, www.bc.is. Aðstoðarmaður framkvæmdastjóra mun koma að öllum þessum verkefnum með einum eða öðrum hætti.

Stjórn Bókaútgáfunnar Codex ræður aðstoðarmann framkvæmdastjóra, sbr. áðurnefnda 9. gr. skipulagsskrár bókaútgáfunnar. Þá er rétt að geta þess að starfið er launað, en kaup og kjör fara eftir nánara samkomulagi við stjórn bókaútgáfunnar. Gert er ráð fyrir að aðstoðarmaður framkvæmdastjóra muni í fyllingu tímans taka við starfi framkvæmdastjóra bókaútgáfunnar.

Umsóknir skulu berast á netfangið bc@bc.is eigi síðar en mánudaginn 4. mars nk. og skal þeim fylgja ferilskrá og önnur gögn sem umsækjandi vill koma á framfæri. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu hefur verið tekin. Frekari upplýsingar varðandi starfsemi bókaútgáfunnar má finna á heimasíðu þessari.

Tvö ný rit frá Bókaútgáfunni Codex – Nálægðarreglan og Viðskiptabréf, 2. útgáfa

Nýtt rit frá Bókaútgáfunni Codex – Nauðgun og önnur brot gegn kynfrelsi fólks

Bókaútgáfan Codex hefur nú gefið út ritið Nauðgun og önnur brot gegn kynfrelsi fólks eftir Ragnheiði Bragadóttur. Bók þessi er afrakstur yfirgripsmikilla rannsókna höfundar ákynferðisbrotunum undir heitinu Kynferðisbrot – Löggjöf og dómaframkvæmd, en í þeim felst rannsókn á ákvæðum almennra hegningarlagaum kynferðisbrot, hinni refsiverðu háttsemi og refsingumfyrir brotin, með samanburði við norrænan rétt.

Efni bókarinnarskiptist í sex hluta. Í fyrsta hlutanum er fjallað um ýmis almenn atriði sem eiga við um nauðgun og önnur brot gegn kynfrelsi fólks. Þar er einnig gerð grein fyrir réttarsögulegri þróun lagaákvæða umnauðgun frá upphafi Íslandsbyggðar fram á okkar daga. Í næstu fjórum hlutum er fjallað um einstakar brotategundir, þ.e. nauðgun sem felst í kynmökum án samþykkis, nauðgun þeirra sem eru í viðkvæmri stöðu, kynferðislega misneytingu og kynferðislega áreitni. Fjölmargir dómar eru reifaðir til að varpa ljósi á einstaka þætti efnisins. Í lokakafla bókarinnar er fjallað um hvort nýlegar lagabreytingar hafi orðið til þess að bæta réttarstöðu þolenda brotanna og hvort þörf sé á frekari breytingum. Leitast er við að setja viðfangsefnið í þjóðfélagslegt samhengi. Því er víða vísað í tölfræðilegar upplýsingar og niðurstöður rannsókna í afbrotafræði um umfang og eðli brotanna. Fjallað er um gildandi lagaákvæði og túlkun dómstóla á gagnrýninn hátt, með sjónarmið kvennaréttarins að leiðarljósi.

Bókin er fyrst og fremst fræðirit, ætluð þeim sem fjalla um kynferðisbrotamál í störfum sínum, og til kennslu í refsirétti og afbrotafræði. Hún er aðgengileg öllum þeim sem láta sig varða þetta sviðréttarins, bæði lærðum og leikum.

Ný vefsíða Bókaútgáfunnar Codex hefur nú verið opnuð

Vefsíða Bókaútgáfunnar Codex hefur fengið væna andlitslyftingu, en nýrri vefsíðu var hleypt af stokkunum í gær. Gamla vefsíðan var komin verulega til ára sinna og fullnægði m.a. ekki tæknikröfum nútímans um gott aðgengi í mismunandi gerðum tækja. Framkvæmd verksins var í höndum Premis og kunnum við þeim góðar þakkir fyrir vel unnin störf.

Mikið er á döfinni hjá Bókaútgáfunni Codex og fjöldi nýrra og spennandi rita að koma út á næstu mánuðum. Hvetjum við alla til að fylgjast vel með á komandi tímum.

Að gefnu tilefni minnum við gesti vefsíðunnar á bókaklúbb Bókaútgáfunnar Codex. Bókaklúbburinn er afar mikilvægur rekstri bókaútgáfunnar í því starfi að efla fræðiskrif á sviði lögfræði. Upplýsingar um hann og skráningarform má finna hér á síðunni eða með því að smella hér.

Allar ábendingar um hvað betur megi fara á nýju vefsíðunni eru vel þegnar og hvetjum við fólk til að senda tölvupóst á bc@bc.is ef eitthvað er.

Nýtt rit frá Bókaútgáfunni Codex

Bókaútgáfan Codex hefur gefið út 3. útgáfu ritsins um Um lög og rétt. Helstu greinar íslenskrar lögfræði undir ritstjórn Bjargar Thorarensen prófessors. Ritið veitir innsýn í helstu grunngreinar íslenskrar lögfræði sem eru stjórnskipunarréttur, stjórnsýsluréttur, réttarfar, samninga- og kröfuréttur, skaðabótaréttur, refsiréttur, eignaréttur og fjölskyldu- og erfðaréttur. Ritið, sem kom fyrst út árið 2006, hefur verið uppselt um nokkurt skeið en hefur nú verið endurskoðað og uppfært með tilliti til lagaþróunar og nýrrar dómaframkvæmdar.

Markmið með útgáfu ritsins er einkum að gefa laganemum í grunnnámi og öðrum sem vilja kynnast helstu grundvallarreglum íslensks réttar kost á að fræðast um það efni á einum stað. Hver kafli ritsins er helgaður einu sviði lögfræðinnar þar sem farið er yfir helstu fræðilegu undirstöður hvers sviðs. Jafnframt er varpað ljósi á framkvæmd dómstólanna á réttareglum um efnið og helstu stefnumarkandi dóma.

Ritið nýtist vel til að leggja grunn að frekara námi í lögfræði á háskólastigi, og hefur m.a. verið nýtt til kennslu á fyrsta ári laganáms við Háskóla Íslands. Þá er það gagnlegt uppflettirit fyrir starfandi lögfræðinga um helstu greinar lögfræðinnar. Einnig hefur ritið upplýsingagildi fyrir almenning og umræðu í þjóðfélaginu um íslenskt réttarkerfi og helstu réttarreglur.

Höfundar eru helstu fræðimenn um efnið hver á sínu sviði og jafnframt núverandi eða fyrrverandi kennarar við Lagadeild Háskóla Íslands.

Útsölustaðir ritsins eru bóksala Úlfljóts, Lögbergi; Bóksala stúdenta, Háskólatorgi; valdar verslanir Pennans/Eymundssonar.